Handbolti

Fundu peninga á síðustu stundu og geta mætt Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland valtaði yfir Litháen í undankeppni EM en Litháen var með nógu góðan árangur í 3. sæti riðilsins, á eftir Íslandi og Portúgal, til að komast einnig á mótið.
Ísland valtaði yfir Litháen í undankeppni EM en Litháen var með nógu góðan árangur í 3. sæti riðilsins, á eftir Íslandi og Portúgal, til að komast einnig á mótið. vísir/vilhelm

Landslið Litháens kemur til Íslands í byrjun nýs árs og spilar tvo vináttulandsleiki áður en liðið heldur á sitt fyrsta stórmót í handbolta karla í rúma tvo áratugi. Um tíma var útlit fyrir að liðið yrði ekki með á EM vegna skuldar.

Handboltamiðillinn Handball World fjallaði um það um síðustu mánaðamót að Litháen yrði mögulega ekki með á EM í janúar vegna þess að handknattleikssambandi þjóðarinnar hefði ekki tekist að greiða mótsgjaldið til EHF.

Haft var eftir fyrrverandi framkvæmdastjóra litháíska sambandsins að það væri enn að burðast með skuldir frá þátttöku sinni á HM og EM fyrir meira en tveimur áratugum.

Nú hefur norski miðillinn Nettavisen hins vegar eftir EHF að búið sé að greiða mótsgjaldið og fjármagna ferð Litháens til Íslands og á EM í kjölfarið. Áður var sá möguleiki fyrir hendi að Norðmenn fengju nýtt lið í sinn riðil á EM, í stað Litháens.

Á heimasíðu handknattleikssambands Litháens má sjá að í þessum mánuði var gerður styrktarsamningur við veðmálafyrirtæki sem og samstarfssamningur við helstu íþróttaútvarpsrás landsins.

Ísland og Litháen mætast í vináttulandsleikjum hér á landi 7. og 9. janúar, áður en haldið verður á EM.

Ísland mætir Portúgal 14. janúar, Hollandi 16. janúar og Ungverjalandi 18. janúar. Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliriðil sem verður einnig leikinn í Búdapest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×