Fótbolti

Sveindís níunda best í Svíþjóð: „Einn mest spennandi leikmaður Evrópu, ef ekki heimsins“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á árinu 2021.
Sveindís Jane Jónsdóttir var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á árinu 2021. vísir/Hulda Margrét

Sveindís Jane Jónsdóttir er í 9. sæti á lista Fotbollskanalen yfir bestu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Í umsögn vefsíðunnar er Sveindís sögð einn mest spennandi leikmaður heims.

Sveindís lék með Kristianstad á síðasta tímabili á láni frá Wolfsburg. Hún kom með beinum hætti að tíu mörkum í sænsku úrvalsdeildinni, skoraði sex og lagði upp fjögur.

„Hin tvítuga Sveindís er einn af mest spennandi leikmönnum Evrópu, ef ekki heimsins. Hún er snögg, marksækin og góð maður gegn manni,“ segir í umsögn Fotbollskanalen. Þar segir ennfremur að Sveindís hafi átt stóran þátt í því að Kristianstad náði Meistaradeildarsæti.

Glódís Perla Viggósdóttir er í 17. sæti á lista Fotbollskanalen. Hún lék með Rosengård fyrri hluta tímabilsins áður en hún fór til Bayern München.

„Glódís var einn besti miðvörður deildarinnar áður en hún fór til Þýskalandsmeistara Bayern í sumar,“ segir í umsögn Fotbollskanalen. „Sterk í loftinu og návígum, góður liðsmaður og les leikinn vel. Spilaði tólf leiki 2021 sem var nóg til að skila henni á listann yfir 25 bestu leikmenn sænsku deildarinnar.“

Rosengård fékk aðra íslenska landsliðskonu, Guðrúnu Arnardóttur, til að fylla skarð Glódísar í miðri vörn liðsins. Rosengård stóð uppi sem sænskur meistari í lok tímabilsins.


Tengdar fréttir

Sveindís og Kári knattspyrnufólk ársins

Sveindís Jane Jónsdóttir og Kári Árnason hafa verið útnefnd knattspyrnufólk ársins 2021 af leikmannavali KSÍ. Þetta er í fyrsta sinn sem bæði fá þessa viðurkenningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×