Japanska handknattleikssambandið ákvað að hætta við þátttöku á Asíumótinu sem á að hefjast í Sádi Arabíu 18. janúar, eftir að hópsmitið kom upp.
Japan mætti liði Erlings Richardssonar, Hollandi, sem og Túnis og heimamönnum á mótinu í Póllandi, þar sem hinir smituðu bíða nú í einangrun.
„Það er svo sem ekkert hægt að setja út á smitvarnir þarna og það voru allir testaðir þegar þeir komu til Póllands en svo smitaðist einn í okkar liði. Það var náttúrulega mikill samgangur, menn saman í búningsklefanum, á æfingum og í mat, og tveir og tveir saman í herbergi, og eftir þetta fyrsta smit þá skall þetta bara á okkur,“ segir Dagur.
Samkvæmt nýjustu tölum eru 12 smitaðir í japanska hópnum, sem klára þurfa tíu daga einangrun í Póllandi. Aðrir voru sendir heim, þar á meðal Dagur sem slapp við smit og er kominn til Íslands.
HM hugsanlega fórnað en „ekkert annað í stöðunni“
Dagur kveðst ekki ósáttur við ákvörðun japanska sambandsins:
„Sambandið tók þessa ákvörðun en það var í raun ekkert annað í stöðunni. Þetta lagðist þannig á hópinn, án þess að ég fari út í hvaða leikmenn smituðust eða í hvaða leikstöðum, og heilsa þeirra þarf að vera í forgangi.“
Asíumótið á meðal annars að skera úr um hvaða fimm lið úr Asíu komast á heimsmeistaramótið á næsta ári. Þar með er enn meiri fórnarkostnaður fólginn í því að hætta við þátttöku á mótinu en Dagur efast um að öll nótt sé úti.
„Við verðum bara að sjá til með það. Þetta er allt í óvissu eins og er, eins og með Afríkumótið og svo virðist Evrópumótið orðið keppni í að ná að setja saman lið,“ segir Dagur en þátttökuþjóðirnar á EM keppast nú um að aflýsa vináttulandsleikjum í aðdraganda EM, vegna kórónuveirusmita. EM á að hefjast næsta fimmtudag.