Hjónin Selma Hafsteinsdóttir og Steinn Stefánsdóttir ættleiddu Martin Má árið 2016 frá Tékklandi þegar hann var tveggja ára gamall. Selma segir í samtali við fréttastofu að lagið hafi í raun „komið til hennar.“ Ferlið hafi ekki tekið langan tíma.
„Það er bara ótrúlega skemmtilegt hvað margir eru að tengja við þetta, sérstaklega þeir sem eru í þessum ættleiðingarheimi, þeir tengja sérstaklega við þetta. Þetta er svona lýsandi fyrir þessar tilfinningar sem maður er að upplifa,“ segir Selma í samtali við fréttastofu.
Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér en kveðjum rignir yfir Selmu á Facebook, þar sem hún birti myndbandið: „Þetta er það fallegasta sem ég hef heyrt – já og ég grenjaði allan tímann. Fór sjálf næstum sjö ár aftur í tímann,“ skrifar ein undir færslu Selmu.
Selma segir að flestir sem eigi börn ættu að geta tengt við lagið enda móðurástin sterk: „Það er bara ótrúlega gaman að sjá hvað fólki finnst þetta fallegt.“