Handbolti

Sigvaldi: Það gæti verið eitthvað í loftinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigvaldi brosir í fyrsta leik gegn Portúgal.
Sigvaldi brosir í fyrsta leik gegn Portúgal. vísir/getty

Sigvaldi Björn Guðjónsson byrjaði EM af krafti gegn Portúgal. Spilaði stórkostlega og minnti handboltaheiminn á hversu magnaður leikmaður hann er orðinn.

„Það er gott fyrir sjálfstraustið og gott að vita að við séum í góðum málum. Við erum með flottan hóp og allir eru heilir. Það verður gaman að spila næsta leik,“ sagði Sigvaldi brattur.

Hann er eini hægri hornamaðurinn í hópnum og fær því mikið traust frá þjálfaranum. Hann sýndi og sannaði að hann veldur því hlutverki vel.

„Mér finnst geggjað að fá þetta traust og hef mjög gaman af þessu. Vonandi heldur líkaminn 100 prósent. Hlakka til að fá fleiri mínútur og geggjað fá þetta traust frá Gumma,“ sagði hornamaðurinn kátur en hann skoraði eitt af mörkum mótsins í gær með frábærum snúningi er það var brotið á honum.

„Þetta er mitt vörumerki. Þessi snúningur og örugglega mitt besta skot. Þessar auglýsingar í teignum eru samt mjög leiðinlegar. Þær trufla mig stundum því boltinn rennur öðruvísi þar. Það er smá bil á milli þeirra sem ég þarf að hitta.“

Hornamaðurinn er spenntur fyrir mótinu og finnur lykt af einhverju eins og margir aðrir.

„Við erum mjög peppaðir fyrir þessu móti og erum með mjög góða tilfinningu sem er mjög mikilvægt. Það eru allir að hafa gaman að spila og vera saman. Liðsandinn er mjög flottur. Það gæti verið eitthvað í loftinu. Ég hef góða tilfinningu.“

Klippa: Sigvaldi þakklátur fyrir traustið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×