Handbolti

„Númer 1, 2 og 3 eigum við að hugsa um að vinna þennan leik, punktur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar mæta heimaliði Ungverja í lokaleik sínum í B-riðli Evrópumótsins í kvöld.
Íslendingar mæta heimaliði Ungverja í lokaleik sínum í B-riðli Evrópumótsins í kvöld. epa/Tamas Kovacs

Gríðarlega mikil spenna er fyrir lokaumferðina í B-riðli Evrópumótsins í handbolta karla en öll fjögur liðin geta enn komist áfram. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson segja að íslenska liðið verði fyrst og síðast að hugsa um sig og vinna Ungverja.

Þrátt fyrir að hafa unnið báða leiki sína á EM er Ísland ekki enn komið áfram í milliriðla. Líkurnar eru þó með Íslendingum í liði en með sigri eða jafntefli gegn Ungverjum fara þeir með  tvö stig í milliriðla. Þá gæti Ísland komist áfram þrátt fyrir tap gegn Ungverjalandi.

Leikirnir í dag fara ekki fram á sama tíma. Ísland og Ungverjaland mætast klukkan 17:00 og klukkan 19:30 er svo komið að leik Portúgals og Hollands.

„Það er klárlega öðru liðinu í hag. Ég held það sé þannig. En ég held að þetta sé praktískt atriði. Þú kaupir þig inn á tvo leiki sama dag og þá verður þetta að vera svona. Ég held að allir séu sammála um þetta sé verra en þess vegna finnst mér ennþá skrítnara að Ungverjarnir ákveði að byrja. Þeir hljóta að fá að velja,“ sagði Ásgeir Örn í EM-hlaðvarpinu.

Róbert lagði áherslu á það að íslenska liðið yrði að einbeita sér að leiknum gegn Ungverjum, ekki hinum leiknum eða öðrum hlutum sem það hefur ekki stjórn á.

„Það þýðir ekkert að pæla í öðrum. Við þurfum bara að pæla í okkur og vinna Ungverjana. Þá þurfum við klárlega meira en eitt leikplan,“ sagði Róbert. Ásgeir Örn tók í sama streng.

„Númer eitt, tvö og þrjú eigum við að hugsa um að vinna þennan leik, punktur. Einhverjir á bekknum þurfa að vera með möguleikana á hreinu ef einhver staða kemur upp en annars þarf einbeitingin að vera á að vinna leikinn, punktur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×