Handbolti

„Ömurleg tilfinning að þurfa að stressa sig á covid-prófum“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigvaldi Björn hefur staðið sig frábærlega á EM.
Sigvaldi Björn hefur staðið sig frábærlega á EM. vísir/getty

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur spilað flestar mínútur á EM af öllum á mótinu og einnig hlaupið lengst. Það er aðeins farið að taka í.

„Skrokkurinn er allt í lagi. Ég er þreyttur og aðeins stífur en held áfram á meðan það er enn möguleiki og gerir allt fyrir Ísland,“ sagði Sigvaldi nokkuð brattur.

Það er örugglega stress fyrir leiki og það er ekki minna stress dagana á milli er menn bíða milli vonar og ótta hvað komi út úr covid-prófum dagsins.

„Þetta er ömurleg tilfinning að þurfa að stressa sig yfir svona hlutum en það er bara eins og það er. Það greinast smit á hverjum degi sem er ógeðslega pirrandi. Við höfum verið mjög óheppnir,“ segir Sigvaldi en veiran virðist ekki ná að bíta á örvhenta leikmenn liðsins.

„Greinilega ekki. Við erum eitthvað heppnir þar og vonandi heldur það bara áfram.“

Svartfjallaland bíður strákanna á eftir og þeir eru staðráðnir í að gera sitt til þess að halda drauminum um undanúrslitasæti á lífi.

„Við erum að spila okkar bolta og sömu vörn og vonandi heldur þetta áfram. Þetta verður erfitt og þeir eru með drullugott lið.“

Klippa: Stress alla daga á EM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×