Kristianstad liðið er í æfingabúðum á Marbella á Spáni en það styttist óðum í tímabilið.
Emelía kom til liðs Elísabetar Gunnarsdóttur í vetur og þurfti ekki margar mínútur til að láta að sér kveða í þessum leik sem endaði með 5-1 sigri Kristianstad.
Emelía kom inn á 70. mínútu leiksins og kom að tveimur síðustu mörkum liðsins. Fyrst átti hún stangarskot sem Tilda Sandén fylgdi eftir og skoraði.
Tilda launaði þá aðstoð með því að stinga boltanum inn á Emelíu sem slapp í gegnum og skoraði fimmta og síðasta markið. Hin mörkin skoruðu þær Evelyne Viens (2 mörk) og Tabby Tindell.
Emelía er kölluð „Hraðlestin“ á heimasíðu Kristianstad í umfjölluninni um leikinn. Báðar voru þær Emelía og Tilda að skora sitt fyrsta mark fyrr aðallið Kristianstad.
Emelía er því búin að opna markareikning sinn í atvinnumennsku fyrir sextán ára afmælið sitt sem er ekki fyrr en í byrjun næsta mánaðar.