Þetta kemur fram í tilkynningu frá sprotafyrirtækinu sem stefnir á að veita öllum landsmönnum aðgang að þjónustu sinni eftir nokkra mánuði, þegar búið verður að samþætta tölvukerfi við kerfisinnviði Seðlabankans. Fram að því verður þeim sem hafa skráð sig á póstlista fyrirtækisins boðið að prufukeyra appið.
Til að byrja með hyggst indó eingöngu bjóða upp á debetkortareikning en með tímanum stendur til að bæta við vöruframboðið í samstarfi við þriðju aðila. Indó verður að öllu leyti rekinn á rafrænu formi og mun ekki halda úti einu einasta útibúi.
Telja indó eiga eftir að breyta íslenskum bankamarkaði til frambúðar
Vísir ræddi við stofnendurna Tryggva Björn Davíðsson og Hauk Skúlason síðasta sumar sem telja indó eiga eftir að breyta íslenskum bankamarkaði til frambúðar. Báðir hafa þeir mikla reynslu úr bankageiranum; störfuðu lengi hjá Íslandsbanka og Tryggvi Björn einnig hjá bönkum í Bretlandi.
„Þetta er búið að vera með eindæmum skemmtilegt og gefandi ferðalag undanfarin 3 ár og ef horft er til baka var það í raun galin hugmynd að láta sér detta í hug að stofan nýjan banka frá grunni. Ég að rifna úr stolti yfir teyminu sem hefur unnið hörðum höndum að því að komast á þennan stað og ég bý við þau einstöku forréttindi að vinna með hópi fólks sem hvert um sig er í heimsklassa á sínu sviði, að öðrum kosti hefðum við aldrei komist þangað sem við erum komin í dag,“ segir Haukur, framkvæmdastjóri indó, í tilkynningu.
Svokallaðir fjártæknibankar og áskorendabankar hafa sótt í sig veðrið í Evrópu á seinustu árum og veitt rótgrónum bönkum mikla samkeppni. Kannast margir Íslendingar við netbanka á borð við Monzo, Revolut og N26 sem hafa nú þegar opnað dyr sínar fyrir íslenskum viðskiptavinum.