Vanda Sigurgeirsdóttir var rétt í þessu endurkjörin sem formaður KSÍ. Vanda var kjörin formaður í október síðastliðnum eftir að Guðni Bergsson steig til hliðar. Vanda var þá fyrsta konan sem var kjörin til formanns KSÍ og fyrst kvenna til að taka við embættinu í aðilarsambandi UEFA. Vanda sigraði Sævar Pétursson í kjörinu um formannsstólinn með 105 (70,47%) greiddum atkvæðum gegn 44 (29,53%).
Vanda gat ekki verið viðstödd á fundinum sjálfum þar sem hún greindist nýverið með Covid-19 veiruna.
Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði en Vanda er einnig eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta ásamt því að vera fyrsta konan sem þjálfaði kvennalandslið Íslands í fótbolta.