Fyrr í kvöld greindi Vísir frá því að FIFA og UEFA hefðu tekið samskonar ákvörðun. Stendur hún þangað til annað kemur í ljós. Nú hefur EHF ákveðið að gera slíkt hið sama.
Bannið á ekki aðeins við um félags- og landslið frá Rússlandi heldur einnig dómara og eftirlitsmenn. Sama á við um einstaklinga frá Rússlandi sem sitja í nefndum og stjórnum EHF. Enginn frá Rússlandi mun vera hafður með í ráðum þangað til annað kemur fram.
Ákvörðun EHF kemur skömmu eftir að Alþjóða ólympíunefndin bað alþjóðleg íþróttasamtök að útiloka Rússa og Hvít-Rússa frá öllum alþjóðlegum mótum vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu og stuðnings Hvíta-Rússlands við téðar aðgerðir.
Ekkert íslenskt lands- né félagslið átti á næstunni að mæta liðum frá ríkjunum tveimur sem hafa nú verið sett í bann.