Fyrir akkúrat tíu árum síðan varð Skúli Eggert Sigurz fyrir alvarlegri líkamsárás á lögfræðistofu sinni í Reykjavík. Maður kom þá inn á lögfræðistofuna Lagastoð vegna skuldar sem stofan innheimti. Úr varð að Skúli ræddi við manninn á skrifstofu sinni þar sem sá síðarnefndi veitti Skúla lífshættulega áverka.
„Um leið og ég sá framan í drenginn hugsaði ég að það væri eitthvað að. Ég sá það á honum. Bara svipurinn í andlitinu. Ég hef oft afgreitt fólk sem á við andleg vandamál að etja og ég sá að það væri eitthvað að,“ sagði Skúli þegar hann ræddi árásina í Kastljósinu árið 2013.
Skúli hafði fellt niður allan aukakostnað við skuldina en þegar hann ætlaði að kveðja manninn stakk hann Skúla.
„Ég lít svona niður og þá stendur bara blóðbunan hérna út. Mér náttúrulega brá alveg rosalega. Ég áttaði mig strax á því að ég hefði verið stunginn en ég fann ekki fyrir því."
Guðni Bergsson, fyrrum formaður Knattspyrnusambands Íslands, kom inn á skrifstofu Skúla og náði að keyra árásarmanninn í gólfið. Maðurinn var að lokum dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og stórhættulega líkamsárás.
Fagnaðarfundir áratug síðar
Eins og áður segir eru tíu ár síðan árásin átti sér stað. Þennan dag fyrir tíu árum var Tómas Guðbjartsson læknir á vakt á Landspítalanum þegar Skúli var fluttur þangað. Þeir voru þá ókunnugir hvor öðrum en eftir þennan atburð og lífsbjörg Skúla hefur myndast með þeim góð vinátta.
Tómas var boðið að halda upp á tímamótin með stórfjölskyldu Skúla og birti mynd af þeim félögum á Facebook síðu sinni í kjölfarið.
„Með einstökum viljastyrk og stuðningi samheldinnar fjölskyldu komst Skúli Eggert Sigurz í gegnum þennan risaskafl. Í kvöld var mér boðið að halda upp á árin tíu með stórfjölskyldu Skúla,“ skrifar Tómas.