Fótbolti

Slógu áhorfendamet í fyrsta heimaleik félagsins í sögunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Charlotte FC létu vel í sér heyra á fyrsta heimaleiknum í sögu félagsins.
Stuðningsmenn Charlotte FC létu vel í sér heyra á fyrsta heimaleiknum í sögu félagsins. ap/Jacob Kupferman

Charlotte FC lék sinn fyrsta heimaleik í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta um helgina og hann reyndist sögulegur.

Charlotte er 28. og nýjasta félagið í MLS. Mikið var um dýrðir þegar Charlotte tók á móti Los Angeles Galaxy í fyrsta heimaleik sínum í MLS á laugardaginn.

Leikurinn fór fram á heimavelli Charlotte, hinum glæsilega Bank of America Stadium sem félagið deilir með NFL-liðinu Carolina Panthers. 

Hvorki fleiri né færri en 74.479 manns mættu á leikinn en aldrei hafa fleiri sótt leik í sögu MLS. Gamla metið var frá því í desember 2018 þegar 73.019 manns sáu Atlanta United og Portland Timbers spila. Fjórir af fimm mestu sóttu leikjum í sögu MLS eru leikir með Atlanta.

Stemmningin á leik Charlotte og LA Galaxy á laugardaginn var rafmögnuð og það var sérstaklega tilkomumikið þegar áhorfendur tóku undir með bandaríska þjóðsöngnum.

Áhorfendur á Bank of America leikvanginum sáu þó sína menn ekki vinna sinn fyrsta MLS-leik í sögunni. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum og það gerði Mexíkóinn Efrain Alvárez fyrir LA Galaxy. Úrslitin spilltu þó ekki gleðinni fyrir þjálfara Charlotte, Miguel Ramírez.

„Við spilum fótbolta því við viljum vinna en í kvöld finnst mér ég vera heppnasti þjálfari í heimi. Þetta var stórkostlegt. Ég get ekki lýst andrúmsloftinu með orðum. Ég vil þakka öllum sem tóku þátt í þessu partíi því þetta var partí,“ sagði Ramírez.

Charlotte hefur tapað báðum leikjum sínum á tímabilinu til þess án þess að skora mark. Næsti leikur Charlotte er gegn Atlanta 13. mars.

MLS

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×