Platan er gefin út undir formerkjum Decca sem er plötuútgáfa Universal. Þorvaldur Örn Davíðsson kórstjóri segir að gríðarlega mikil útrás fyrir íslenska kórtónlist felist í útgáfunni.
„Universal hafði samband við mig eftir að kórinn gaf út tónlistarmyndbönd sem tekin voru upp í síldarverksmiðjunni á Hjalteyri við Eyjafjörð. Myndböndin höfðu vakið mikla athygli innan fyrirtækisins og voru þau mjög spennt að vinna með okkur,“ segir Þorvaldur Örn Davíðsson kórstjóri í tilkynningu.

„Graduale Nobili var stofnaður um aldamótin af Jóni Stefánssyni organista í Langholtskirkju og hefur skipað sér sess meðal færustu kóra Íslands. Frægðarsól kórsins hefur risið hratt að undanförnu og hefur kórinn meðal annars sungið á tónleikaferðalagi með Björk Guðmundsdóttir,“ segir enn fremur.
Kórinn mun flytja plötuna í heild sinni á útgáfutónleikum í Langholtskirkju þann 1. maí næstkomandi en hægt er að hlusta á plötuna hér.