Margþætt og hörð gagnrýni hefur verið höfð um útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir tæpum þremur vikum. Um er að ræða 22,5 prósenta hlutur ríksins en selt var hlutafé fyrir 450 milljarða króna að nafnvirði á genginu 119. Eins og fram hefur komið áttu nokkrir þeirra fjárfesta sem fengu að kaupa þegar selt hlut sinn aftur og tekið til sín góðan hagnað með þeim hætti.
Í fyrstu var talað um að tímasetning sölunnar hafi komið fólki í opna skjöldu en þeirri gagnrýni var svarað af þeim sem henni stýrðu sem svo að það væri einmitt nauðsynlegt til að forðast markaðsmisnotkun; að verð hlutabréfa væri með eðlilegum hætti þegar til sölu kæmi.
Einn þeirra sem hefur farið hörðum orðum um söluna og að þjóðin hafi alls ekki fengið það sem henni bar við hana er alþingismaðurinn Björn Leví.
Hann bendir á að lægsta verð hlutabréfa í Íslandsbanka að undanförnu hafi einmitt verið dagurinn sem Íslandsbanki var seldur með afslætti. Þá hafi verðið verið 4,75 prósentum lægra en tæpri viku áður. Þannig er það ekki eitt heldur allt sem er aðfinnsluvert við söluferlið.
Björn Leví birtir mynd á Facebooksíðu sinni sem sýnir þróun verðs á hlutabréfunum dagana í kringum söluna.

„Eitt af því sem umsagnaraðilar vöruðu við ef það væri farið í tilboðsleið, að það yrði að passa að það yrði engin markaðsmisnotkun á söluverði þess dags þegar salan færi fram. Í dag hljóma orðin sem Bankasýslan sagði við okkur eftir seinni söluna, að þeir væru rosalega ánægðir með að ekkert spurðist út um söluna fyrir lokun markaða,“ segir Björn og furðar sig á þessu.
Honum telur einsýnt að allir þeir sem fylgjast með markaði vissu vel hvað stóð til, hann hafi heyrt orðróm þess efnis:
„Þessi sveifla rennir svo sannarlega stoðum undir þann orðróm.“