Breiðablik var sterkari aðilinn frá byrjun í kvöld og skoruðu mark strax í upphafi, Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eftir rúma mínútu. Frammistaða liðsins var virkilega góð og Keflvíkingar áttu í stökustu vandræðum.
„Það er bara þannig að þegar orkustigið er rétt og krafturinn er til staðar þá er þetta lið öflugt. Leikmennirnir voru rétt stilltir í dag sem er lykilatriði í þessu. Fyrsta skrefið í þessu var sterkt og menn spiluðu óttalausir og án þess að hafa áhyggjur sem er gríðarlega mikilvægt. Ég er mjög sáttur með leikinn,“ sagði Óskar í samtali við Vísi eftir leik.
Áðurnefndur Ísak Snær var að spila sinn fyrsta leik í Íslandsmóti fyrir Blika en hann kom til liðsins frá ÍA fyrir tímabilið. Hann þakkaði traustið og var kominn með tvö mörk eftir tuttugu og tvær mínútur.
„Hann færir okkur fyrst og síðast gríðarlegan dugnað. Hann er mjög líkamlega sterkur, sterkur í loftinu og með góð hlaup. Hann er alhliða virkilega góður leikmaður sem getur leyst margar stöður fyrir okkur. Hann er gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessu liði,“ sagði Óskar Hrafn að endingu.