Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að í aðdraganda fyrirhugaðrar skráningar hafi Nova gengið frá hlutafjáraukningu.
„Tilgangur hlutafjáraukningarinnar er að styðja enn frekar við framtíðarvöxt félagsins og áframhaldandi fjárfestingar svo félagið viðhaldi forskoti sínu í framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina sinna.
Samhliða hlutafjáraukningunni hafa núverandi hluthafar selt hluta af eign sinni. Nýir hluthafar eignast um 36% hlut í félaginu. Meðal nýrra hluthafa eru sjóðir í rekstri Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréfa. Hluthafalisti ásamt ársreikningi og ítarlegri fjárhagsupplýsingum verður birtur í aðdraganda útboðsins,“ segir í tilkynningunni.
Nova var stofnað árið 2006 og er eitt af stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins. Hjá félaginu starfa um 150 starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi.