Handbolti

Dómari féll á píptesti

Sindri Sverrisson skrifar
Dómarar þurfa að vera í góðu formi til að dæma leiki hjá bestu handboltamönnum heims.
Dómarar þurfa að vera í góðu formi til að dæma leiki hjá bestu handboltamönnum heims. Getty/Sanjin Strukic

Einn besti handknattleiksdómari Danmerkur mun ekki dæma aftur leik fyrr en í fyrsta lagi eftir sumarfrí, eftir að hafa fallið á hlaupaprófi.

Dómarinn Mik Trustrup, sem er 34 ára gamall, hefur ásamt Morten Lethan Albrechtsen dæmt marga stórleiki í danska handboltanum og fengið hrós úr ýmsum áttum. Þeir hafa hins vegar ekki mátt dæma saman síðan 20. mars.

Trustrup féll nefnilega á hlaupaprófi sem lagt er fyrir dómara fjórum sinnum á ári, til að ganga úr skugga um að þeir séu í nægilega góðu líkamlegu ástandi til að dæma handboltaleiki á hæsta stigi.

Hlaupaprófið er líkt og píptestin sem gerð eru í íslenskum grunnskólum og voru mikið í umræðunni fyrir skömmu.

Þeir dómarar sem falla á prófinu mega reyna aftur innan 14 daga en Trustrup ákvað að taka sér frekar hlé og koma sér í betra form. Hann hafði jafnframt í huga að falli dómarar þrisvar á prófinu mega þeir aldrei dæma aftur.

„Ef ég hefði fallið á endurtektarprófinu hefði ég því bara átt einn séns til viðbótar. Þá væri dæmið búið ef ég myndi ekki standast prófið í ágúst. Þess vegna valdi ég að taka ekki prófið aftur og einbeita mér frekar að því að bæta líkamlegt form mitt, svo það verði umtalsvert betra í ágúst en hingað til í ár,“ sagði Trustrup við TV 2.

Auk Trustrup féll dómarinn Henrik G. Nielsen einnig á hlaupaprófinu í mars. Makkerinn hans Nielsen, Jakob F. Hansen, getur því dæmt leiki með Albrechten að minnsta kosti þar til að þeir Trustrup og Nielsen snúa aftur eftir sumarfríið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×