Klinkið

Benedikt Egill ráðinn framkvæmdastjóri LOGOS

Ritstjórn Innherja skrifar
Benedikt hefur starfað hjá LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, frá árinu 2005 og hefur verið meðeigandi frá 2013.
Benedikt hefur starfað hjá LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, frá árinu 2005 og hefur verið meðeigandi frá 2013.

Benedikt Egill Árnason, lögmaður og einn eigenda LOGOS lögmannsþjónustu, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Tekur hann við af Þórólfi Jónssyni, lögmanni, sem hefur gegnt starfinu síðastliðin þrjú ár en mun nú einbeita sér alfarið að lögmannsstörfum hjá félaginu.

Benedikt hefur starfað hjá LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, frá árinu 2005 og hefur verið meðeigandi frá 2013. Hann hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2006 og er með LL.M. gráðu í alþjóðlegri fjármögnun frá King‘s College í London, auk þess sem hann hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun.

„Ég er ákaflega spenntur fyrir þessu nýja starfi og þakka traustið. LOGOS er stærsta lögmannsstofa landsins og eru verkefnin fjölbreytt sem endranær. Það verður gaman að leiða áframhaldandi uppbyggingu stofunnar með þeim öfluga hópi starfsfólks sem þar starfar,“ segir Benedikt Egill Árnason, nýr framkvæmdastjóri LOGOS, í tilkynningu frá félaginu.

Hjá LOGOS starfa 70 manns á skrifstofum félagsins bæði í Reykjavík og London. Rekstrarhagnaður stofunnar fyrir fjármagnsliði nam á síðasta ári um 750 milljónum króna og jókst um 12 prósent frá fyrra ári. Velta LOGOS nam rúmlega tveimur milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 7 á milli ára.






×