Heiðdís hefur síðustu fimm ár unnið að sýningunni og segir hún opnunardaginn hafa verið töfrum líkastur.
Það var stöðugur straumur af góðu fólki sem kom til þess að samgleðjast með mér og tilfinningin var æðisleg, flest verkin seldust en auðvitað er hægt að koma að skoða.
Sýningin ber nafnið STYTTIR UPP og segist Heiðdís lengi hafa verið að burðast með það að halda sýningu en ekki haft kjarkinn fyrr en nú. Heðgun hugans segir hún hafa verið henni hugleikin við vinnslu verkanna.
Sorg, vonbrigði og tilfallandi geðsveiflur eru hluti af eðlilegri líðan mannsins. Dapurleikinn varir ýmist stutt eða lengi, stundum of lengi.

„...Og hvernig hugurinn á það til að koma aftan að manni með látum þegar maður á síst von á því. Birtan og blæbrigðin í verkunum er áminning um það að vonir glæðast, vorsólin ylur vetrarhríð og blómin birtast á ný, um leið og það styttir upp.“

Heiðdís nam Listfræði í HÍ áður en hún útskrifaðist með BA gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands. Hún vinnur aðallega með teikningar gerðar með bleki og vatnslitum sem hún selur í eftirprentum.
Ásamt því að reka vinnustofu sína og verslun er hún einnig með Listasmáskólann sem hún stofnaði til þess að kenna ungmennum myndlist yfir sumartímann í Hafnarfirði.
Það var margt um manninn og mikil gleði á opnun sýningarinnar en hér fyrir neðan má sjá myndir frá viðburðinum.












