Hannes sagði íslensk stjórnvöld draga lappirnar í samtali við Vísi í morgun þar sem fjármagn, 500 milljónir króna, sem samþykkt var að veita íþróttahreyfingunni í mars hafi enn ekki skilað sér. Málið sé fast á milli ráðuneyta og á meðan drabbist starfsemi félaganna niður.
Hannes vakti athygli á málinu í kjölfar þess að mörg félög lentu í vandræðum með að gera upp skuldir sínar við KKÍ og greiða skráningargjöld fyrir þátttöku í Íslandsmótum á vegum KKÍ. KR var þá of seint að greiða sín gjöld vegna skuldar við KKÍ.
Darri Freyr, sem var þjálfari hjá KR síðast tímabilið 2020-21 og er uppalinn í Vesturbænum, virðist lítið koma til stefnu félagsins, og annarra sem reka sín mál með þeim hætti að þau safni upp skuldum.
Ég hef engan áhuga á því að mitt skattfé fari í að borga undir Kyle Johnson sem fimmta atvinnumann.
— Darri (@DarriFreyr) June 10, 2022
Fjárhagsvandræði liðanna eru sjálfsköpuð með fáránlegu vígbúnaðarkapphlaupi. Eiga ekki að fá frekari styrki.https://t.co/uaLlLwcEOe
„Ég hef engan áhuga á því að mitt skattfé fari í að borga undir Kyle Johnson sem fimmta atvinnumann,“ sagði Darri á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Hann á þá líklega við vinsæla stefnu körfuboltafélaga að safna upp útlendingum á kostnað yngri og uppaldra leikmanna. Þeirri stefnu líkir hann við vígbúnarkapphlaup, þar sem ofuráhersla er lögð á árangur meistaraflokks á kostnað annarar starfsemi.
„Fjárhagsvandræði liðanna eru sjálfsköpuð með fáránlegu vígbúnaðarkapphlaupi. Eiga ekki að fá frekari styrki.“ sagði Darri Freyr enn fremur í færslu sinni á Twitter.
Athygli vekur að Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, endurtísti færslu Darra og tók undir orð hans að fullu.