Verðbólguspáin er sömuleiðis nokkuð svartari en hjá Greiningu Íslandsbanka sem gerir ráð fyrir því að ársverðbólga muni mælast 8,4% í júnímánuði.
Því er spáð í nýrri Hagsjá Landsbankans að matarverð, reiknuð húsaleiga, eldsneyti og flugfargjöld muni skýra 80% af hækkun verðlags milli mánaða. Í spá sem bankinn birti var í maí var gert ráð fyrir 0,8% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða en hann spáir nú 1,3% hækkun milli maí og júní.
Hagfræðideild Landsbankans á von á því að dæluverð eldsneytis hækki um 8% milli mánaða vegna hækkana á heimsmarkaðsverði á olíu en fram kemur í Hagsjánni að bensínverð hafi einungis tvisvar hækkað meira en 8% frá því að mælingar hófust árið 1997. Það var í mars síðastliðnum og í apríl 2009 þegar bensínverð hækkaði um 8,2%.
Hagfræðideild Landsbankans spáir nú 0,4% hækkun á vísitölu neysluverðs í júlí, 0,7% hækkun í ágúst og 0,1% hækkun í september. Gangi þetta eftir mun verðbólgan fara hæst í 9,1% í ágúst áður en hún lækkar í 8,7% í september. Hagstofan birtir nýjar verðbólgutölur þann 29. júní.