Fyrstu viðskipti með hlutabréf Nova hófust klukkan hálf tíu og var bjöllunni hringt í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Lágmúla. Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, var bjartsýn á framhaldið þegar fréttastofa náði tali af henni í morgun við opnun markaða.
„Við höldum bara áfram að hlúa að þeim markmiðum sem að við höfum verið að hlúa að í ferðalaginu hjá okkur síðastliðin fimmtán ár. Að eiga ánægðustu viðskiptavinina, hlúa að starfsfólkinu og vera besti vinnustaðurinn. Halda áfram að byggja upp sterka innviði og vera með besta netsambandið og að vera með sterkasta vörumerkið hjá okkur. Þannig trúi ég að við höldum áfram að vaxa og dafna,“ sagði Margrét.

Athygli vekur þó að hlutabréfin höfðu lækkað í verði um tíu prósent nokkrum klukkustundum eftir fyrstu viðskipti dagsins. Gengi hlutabréfa við opnun markaða var 5,11 krónur en stendur þegar þetta er skrifað í rúmlega 4,6 krónum á hlut. Lægst fór verðið niður í 4,52 krónur.
Vanda þurfi til verka
Snorri Jakobsson, hjá Jakobsson Capital, segist ekki muna eftir því á íslenskum markaði að hlutabréf falli í verði með þessum hætti á fyrstu klukkustundunum. „Þetta er afskaplega slæmt fyrir Nova og þann sem hélt útboðið, Arion banka. Þetta eru kannski ákveðnir álitshnekkir,“ segir Snorri.
Nova seldi 45 prósent hlutafjár síns í útboði fyrr í mánuðinum, að andvirði 8,7 milljarða króna, en seljendur höfðu þá ákveðið að stækka útboðið um 20 prósent, þrátt fyrir að ekki hafi verið umfram eftirspurn hjá fagfjárfestum.
„Þetta kannski kennir manni að fara sér hægt og vanda sig meira þegar menn eru að skrá, það vantaði svolítið svona kjölfestu fagfjárfestanna sem eru styrkasta stoðin í eigendahópnum,“ segir Snorri.
Ómögulegt er þó að segja til um hvernig málin muni þróast og því verði tíminn að leiða í ljós hverjar langtímaafleiðingarnar verða fyrir Nova.