Eins og ljóst varð í apríl verður Ísland með á HM og í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í Katowice í Póllandi á laugardaginn. Það þýðir að Ísland sleppur við að vera í riðli með Danmörku, Svíþjóð, Spáni, Frakklandi, Noregi og Þýskalandi, sem og verðandi Afríkumeisturum sem krýndir verða í júlí.
Holland og Slóvenía bættust í dag í hóp þeirra liða sem verða á HM. Ákvörðun IHF byggir meðal annars á árangri landsliða á stórmótum síðustu ár og þróun handboltaíþróttarinnar í viðkomandi löndum.
Holland tapaði naumlega gegn Portúgal í HM-umspilinu í apríl, samtals 65-61, í síðustu leikjum sínum undir stjórn Erlings Richardssonar. Slóvenía tapaði í sama umspili gegn Serbíu, samtals 57-51.
Misstu af möguleikanum vegna hópsmits
Ákvörðun IHF hefur í för með sér að úti er um vonir Dags Sigurðssonar og lærisveina hans í landsliði Japan um að komast á HM. Japanir neyddust til að hætta við keppni á Asíumótinu í janúar, vegna hópsmits af kórónuveirunni, og höfðu því ekki möguleika á að vinna sér inn HM-sæti með árangri á því móti.
Japanir missa því af HM eftir að hafa verið með á síðustu þremur heimsmeistaramótum í röð. Ljóst er að fleiri lönd vonuðust eftir boðsæti á HM en IHF gefur ekki upp hvaða lönd það voru.
Ísland í efsta flokki
Alls hafa 26 landslið nú fengið sæti á HM en enn eru sex laus sæti. Verðandi Norður-Ameríkumeistarar, sem krýndir verða 1. júlí, fá eitt sæti. Fimm Afríkuþjóðir bætast svo við eftir Afríkumótið í Egyptalandi 11.-18. júlí, en því var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Svona líta styrkleikaflokkarnir fjórir út fyrir dráttinn á laugardag:
Flokkur 1: Danmörk, Svíþjóð, Spánn, Frakkland, Noregur, ÍSLAND, Þýskaland, Afríka 1.
Flokkur 2: Katar, Króatía, Belgía, Brasilía, Portúgal, Pólland, Svartfjallaland, Norður-Makedónía.
Flokkur 3: Serbía, Ungverjaland, Argentína, Brasilía, Barein, Sádi-Arabía, Afríka 2, Síle, Afríka 3.
Flokkur 4: Úrúgvæ, Afríka 4, Íran, Suður-Kórea, Norður-Ameríkumeistararnir, Holland, Slóvenía.