Sunak og Sajid Javid, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, urðu fyrstir ráðherra í hrinu afsagna til að segja af sér. Þeir gerðu grein fyrir ákvörðuninni í bréfi sem þeir birtu á Twitter á þriðjudag þar sem þeir lýstu yfir vantrausti í garð Johnsons.
Í framboðsmyndbandi Sunaks sagði hann sögu ömmu sinnar og afa sem fluttu til Bretlands frá Indlandi. Hann sagði Bretland hafa veitt sér, fjölskyldu sinni og raunar milljónum fjölskyldna tækifæri. Sunak sagðist fyrst og fremst hafa farið út í stjórnmál til að tryggja fleirum slík tækifæri.
Hann sagðist vilja leiða þjóðina í rétta átt og að nú sé nóg komið af óeiningu og sundrung. Nú þurfi að sameina bresku þjóðina. Tónlistin í myndbandinu er til þess fallin að skapa ákveðin hughrif; eftirvæntingu og von og hafa gæði myndbandsins orðið til þess að sumir efast um að Sunak hafi tekið ákvörðun um framboðið fyrir nokkrum dögum.