„Hún var bara ótrúlega góð. Leið vel og ótrúlega stolt að vera á þessum stað,“ sagði Sandra um tilfinninguna að spila loks sínar fyrstu mínútur og hélt svo áfram.
„Bara geggjað, þetta var draumi líkast. Augnablik sem maður er búinn að bíða eftir í langan tíma og ótrúlega ánægð með alla Íslendinga mættu og voru að hvetja, við áttum þessa stúku – það er alveg klárt.“
„Já, samt bara eðlilegt. Ég furðaði mig á því í byrjun leiks að ég væri ekki jafn stressuð og héldi að ég myndi vera. Er náttúrulega búin að vera í þessu í langan tíma þannig að ég var tilbúin fannst mér,“ sagði Sandra aðspurð hvort það hefði verið smá stress fyrir leik.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, fingurbrotnaði á æfingu skömmu fyrir leik, og var Sandra spurð út í það.
„Þetta er náttúrulega ótrúlega súrt. Sérstaklega fyrir hana en líka fyrir okkur því við erum teymi og æfum mikið saman, gerum þetta saman og stöndum þétt við bakið á hver annarri þannig þetta var gríðarlega svekkjandi.“
Um vítið sem Belgía skoraði úr hafði Sandra eftirfarandi að segja:
„Að mig langaði að verja þetta. Það tókst ekki, ég var búin að skoða einhverjar klippur og tók sénsinn en hún gerði þetta bara vel. Maður getur ekki bara stólað á klippur, maður verður að reyna lesa þetta og hún gerði vel, var sultuslök og kláraði þetta. Það er eins og það er.“
„Við tökum þetta stig með okkur og það vonandi gefur okkur klárlega eitthvað. Svo stefnum við á þrjú stig á fimmtudaginn, engin spurning,“ sagði Sandra Sigurðardóttur, aðalmarkvörður Íslands, að lokum.