Fótbolti

Þrír Íslendingaslagir á Norðurlöndunum | Davíð Kristján skoraði

Atli Arason skrifar
Davíð Kristján Ólafsson í landsleik gegn Albaníu á Laugardalsvelli.
Davíð Kristján Ólafsson í landsleik gegn Albaníu á Laugardalsvelli. P. Cieslikiewicz

Sex íslenskir leikmenn spiluðu í Noregi og Svíþjóð í dag þar sem þrír Íslendingaslagir voru á dagskrá.

Í Svíþjóð mættust Kalmar og Sirius og gerðu 1-1 jafntefli. Aron Bjarnason leikur með Sirius og Davíð Kristján Ólafsson leikur með Kalmar. Davíð var í vinstri bakverði og Aron á hægri kanti en báðir spiluðu þeir allar 90 mínúturnar í sannkölluðum Íslendingaslag. Davíð skoraði mark á 34. mínútu sem tryggði Kalmar stig úr leiknum.

Í Noregi var annar Íslendingaslagur. Þar mættust Lillestrøm, lið Hólmberts Arons Friðjónssonar, og Viking, sem Patrik Gunnarsson og Samúel Kári Friðjónsson leika með.

Patrik var allan tímann í marki Viking sem vann 0-1 útisigur en Hólmbert og Samúel komu báðir inn á völlinn sem varamenn. Samúel á 65. mínútu en Hólmbert á 86. mínútu.

Í þriðja Íslendingaslagnum var þó enginn slagur á milli Íslendinga þegar Vålerenga, lið Brynjars Inga Bjarnasonar, vann 3-0 sigur á Brynjólfi Andersen Willumssyni og félögum í Kristiansund. Brynjólfur var í byrjunarliði Kristiansund og lék fyrstu 62 mínúturnar á meðan Brynjar Ingi sat allan tímann á varamannabekknum.

Björn Bergmann Sigurðarson spilaði ekki með Molde í dag vegna meiðsla. Molde vann 5-1 sigur á Tromsø.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×