Auður fór ásamt fjölskyldu sinni til Englands að fylgjast með stelpunum okkar spila á EM en ferðin tók óvænta stefnubreytingu þegar Auður varð skyndilega orðinn hluti af sjálfum landsliðshópnum stuttu eftir komuna til Englands.
Auður er markvörður sem spilar með Aftureldingu í Bestu-deildinni, á láni frá Val.
„Við komum hingað saman og ætluðum að vera 10 saman í húsi. Við erum nýlent inn um dyrnar þegar Auður fær símtal,“ sagði Brynja en í því símtali fékk Auður að vita að búið væri að kalla hana upp inn í landsliðshópinn í staðinn fyrir Cecilíu Rán Rúnarsdóttur sem meiddist tveimur dögum fyrir fyrsta leik mótsins gegn Belgíu.
„Þetta var bara gæsahúð,“ bætti Brynja við.
„Hún átti að vera hliðina á mér í stúkunni en hún verður þarna einhvers staðar á varamannabekknum. Við bjuggumst aldrei við þessu en svona er boltinn.“
Auður mætti til Englands sem áhorfandi en ekki leikmaður og var því vissulega ekki með réttan búnað til knattspyrnuiðkunar meðferðis. Það þurfti því í flýti að redda markmannshönskum, takkaskóm og öðru þvíumlíkt fyrir Auði.
„Ég skilaði henni niður á hótel hjá KSÍ og þau sáu um þetta en svo voru líka einhverjar græjur sendar að heiman.“
Brynja finnur vissulega til með Cecilíu Rán sem missir af sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu en eins og gamla klisjan segir, þá kemur alltaf maður í manns stað.
„Það eru bara forréttindi fyrir hana að fá að upplifa þetta ævintýri,“ sagði Brynja að lokum.