Fram undan er úrslitaleikur um sæti í átta liða úrslitum á móti Frökkum. Frakkar eru komnir áfram en Ísland er að keppa við Ítalíu og Belgíu um hitt lausa sætið.
Þorsteinn Halldórsson er umhugað um það að leikmennirnir nái bæði að hlaða batteríin líkamlega og andlega og eins og fyrir Ítalíuleikinn þá fengu þær aftur frí.
Flestar af stelpunum okkar mældu sér móts við sitt fólk í Manchester en þó ekki allar.
Dagný Brynjarsdóttir bjó sér þannig til tvo auka klukkutíma með því að fá Brynjar son sinn og eiginmanninn Ómar Páll Sigurbjartsson til sína á hótelið í Crewe.
„Ég ákvað að vera hérna eftir á hótelinu og ég fékk soninn minn og manninn minn í heimsókn. Það var virkilega kærkomið og þetta var fyrsti heili dagurinn sem ég fékk að eyða með þeim núna í þrjár vikur. Ég ákvað að vera ekki að eyða honum í rútu á leið til Manchester og eyða frekar þessa tvo auka klukkutíma á hótelinu með þeim,“ sagði Dagný.
