Eitt af fjölmörgum stórliðum sem voru orðuð við Ronaldo er lið Atletico Madrid.
Ronaldo á náttúrulega flest markametin hjá nágrönnum og erkifjendum þeirra í Real Madrid og fór oft illa með Atletico Madrid á sínum tíma.
Ekkert verður að því að Ronaldo fari til Atletico en hann sneri aftur til Manchester til að ræða málin við nýja knattspyrnustjórann Erik ten Hag.
Þar vóg örugglega þungt að stuðningsmannaklúbbur Atletico Madrid vildi alls ekki fá Cristiano Ronaldo og sendi félaginu formlega tilkynningu þess vegna. Þar var ekki talað undir rós.
„Í ljósi þess að félagið á möguleika á að fá Cristiano Ronaldo, og ef að það sé meira en orðrómur, þá lýsum við yfir algjörri andstöðu við slík áform. Umræddur leikmaður stendur fyrir andstöðu þeirra gilda sem hafa byggt upp Atleti eins og vinnusemi, gjafmildi, hógværð og auðmýkt,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni frá Union Internacional de Peñas Atletico de Madrid.
Así es el Comunicado Oficial de la Unión Internacional de Peñas del Atlético de Madrid
— Diario AS (@diarioas) July 27, 2022
Rechazan rotundamente el posible fichaje de Cristiano Ronaldo por ser "un jugador en franca decadencia" que "representa la antítesis de los valores del Atleti"
¿Estás de acuerdo? pic.twitter.com/VBZB4Bt5fG
Stuðningsmenn Atletico héldu líka uppi borða á æfingarleik liðsins á móti Numancia þar sem þeir mótmæltu hugsanlegri komu Ronaldo.
„Þrátt fyrir að svo ólíklega vildi til, að hnignandi leikmaður eins og Cristiano Ronaldo myndi tryggja okkur titil, þá myndum við aldrei sætta okkur við komu hans. Hann myndi aldrei vinna sér inn ást okkar eða viðurkenningu,“ sagði enn fremur í þessu harðorða bréfi.