Verðbólgan og fasteignaverð haldast áfram í hendur en verðbólgan mældist 9,9 prósent í júlí og hefur ekki verið hærri frá því í september 2009. Þá er viðbúið að hún hækki enn frekar, að sögn Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðingi hjá Íslandsbanka.
„Við erum að gera ráð fyrir að hún nái hámarki núna í ágúst og september, verði svona þá í hæstu gildunum, og taki svo að hjaðna mjög hægt reyndar og verði svolítið mikil bara út spátímann. Við erum að spá út 2024,“ segir Bergþóra.
Ólíklegt að húsnæðisverð lækki
Þó húsnæðisverð hafi sömuleiðis hækkað hratt virðist sem dregið hafi úr hækkunartaktinum. Halldór Kári Sigurðarson, hagfræðingur hjá Húsaskjól fasteignasölu, sagði ljóst í aðsendri grein á Vísi í dag að húsnæðisverðslækkanir væru raunhæfur möguleiki á seinna hluta ársins.
Bergþóra segir þau ekki hafa áhyggjur af því, þó ekki sé hægt að útiloka neitt og nefnir til að mynda sömu dæmi og Halldór um lækkanir í Ástralíu og Svíþjóð.
„En við teljum það vera frekar ólíklegt miðað við stöðuna hér í dag. Það gæti verið hins vegar að við sjáum einhverjar raunverðslækkanir á fasteignamarkaði þegar hann fer að hægja á sér og við erum enn þá með mikla verðbólgu,“ segir hún.
Það verði þó líklega ekki til lengri tíma þar sem verðbólgan muni hjaðna þegar fasteignamarkaðurinn hægir á sér.
„Þótt við sjáum mögulega einhverjar raunverðslækkanir í einhverja mánuði, þá skiptir það ekki máli í stóra samhenginu, við erum ekki að búast við því að fasteignamarkaðurinn sé að fara að lækka á ársgrundvelli, heldur mögulega bara einhverja mánuði,“ segir Bergþóra.
Markaðurinn nái vonandi jafnvægi um mitt næsta ár
Þá muni aðgerðir sem stjórnvöld gripu til á endanum hafa áhrif til að kæla markaðinn auk þess sem það er fyrirsjáanlegt að framboð muni fara að aukast strax í lok þessa árs.
„Hertari lántökuskilyrði sem Seðlabankinn setti á, hærri vextir og svo aukið framboð, þetta svona hjálpar allt saman við að róa markaðinn og við erum svona að vonast til að hann komist í jafnvægi um mitt næsta ár,“ segir Bergþóra.
Ekki þurfi að hafa áhyggjur af bólu á markaðinum að svo stöddu.
„Ef við náum tökum á fasteignamarkaðinum sem fyrst og hann fer svona aðeins að hægja á sér og róast, þá finnst okkur það alla vega frekar ólíklegt að fasteignamarkaðurinn taki dýfu,“ segir hún.