Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er ungur listamaður að hafa gaman.
Hvað veitir þér innblástur?
Hljómsveitin Injury Reserve er minn helsti innblástur í tónlist. Einu sinni var ég að hlusta á plötuna þeirra og ákvað á meðan ég var að hlusta að ég ætlaði að byrja að semja tónlist sjálf.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Mitt besta ráð þegar það kemur að andlegri heilsu er að umkringja sig fólki sem þú virkilega vilt umkringjast og slíta samböndum við fólk sem dregur þig meira niður.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Dagarnir mínir eru svo rosalega mismunandi. Alltaf eitthvað nýtt að gerast eða öðruvísi verkefni sem ég fæ.
En ég enda eiginlega hvern einasta dag upp í stúdíóinu mínu að semja tónlist.
Uppáhalds lag og af hverju?
Uppáhalds lagið mitt núna er Mercury með Steve Lacy. Það er alveg ótrúlega gott. Er að hlusta á það á repeat núna.
Uppáhalds matur og af hverju?
Uppáhalds maturinn minn er beygla. Ég elska beyglur og er á Deig í þessum skrifuðu orðum. Beygla er bara svo einföld, létt og þægileg.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Besta ráð sem ég hef fengið er klárlega að ekki taka athugasemdum persónulega þegar það kemur að tónlist, þótt það geti verið erfitt.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Mér finnst persónulega það skemmtilegasta við lífið vera fjölskyldan, vinir og tónlist.