Kristall hóf leikinn á varamannabekk Rosenborg, en kom inn á sem varamaður eftir um klukkutíma leik. Þá var staðan 1-1 eftir að liðin skoruðu sitt hvort markið með stuttu millibili í fyrri hálfleik.
Það stefndi allt í að 1-1 yrðu lokatölur leiksins því þannig var staðan ennþá þegar venjulegum leiktíma lauk.
Heimamenn í Rosenborg gáfust þó ekki upp og Daninn Casper Tengstedt tryggði liðinu 2-1 sigur með marki á annarri mínútu uppbótartíma.
Rosenborg er nú með 37 stig í fjórða sæti deildarinnar eftir 19 umferðir, einu stigi á eftir Bodö/Glimt sem situr í þriðja sætinu og átta stigum á eftir toppliði Molde. Ålesund situr hins vegar í 11. sæti deildarinnar með 21 stig.