Í tilkynningu frá Sjómannadagsráði segir að Sigurður hafi sjálfur beðið um að láta af störfum en honum eru færðar miklar þakkir fyrir farsælt samstarf um langt árabil.
„Ég kveð þennan vinnustað og framúrskarandi samstarfsfólk á liðnum árum með söknuði en er jafnframt sannfærður um að þetta er rétti tímapunkturinn til þess að söðla um og beina þeirri reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast, í nýja farvegi á nýjum slóðum sem mig langar að feta,“ segir Sigurður.
Aríel Pétursson, formaður stjórnar Sjómannadagsráðs, segir að ráðið sýni þessari ákvörðun fullan skilning og þakkar Sigurði fyrir störf sín.
„Það eru miklar nýjar áskoranir í verkefnum okkar og með nýju fólki koma eins og alltaf nýjar hugmyndir og áherslur. Við bjóðum þær einfaldlega velkomna,“ segir Aríel.
Sjómannadagsráð rekur meðal annars Hrafnistu og sér um leiguíbúðir um allt land. Alls starfa um 1.700 manns hjá ráðinu.