Fótbolti

Selma hafði betur í Íslendingaslagnum í Noregi | Guðrún á toppnum í Svíþjóð

Atli Arason skrifar
Selma Sól Magnúsdóttir í landsleik með íslenska landsliðinu.
Selma Sól Magnúsdóttir í landsleik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty

Selma Sól Magnúsdóttir og stöllur hennar í Rosenborg unnu 3-2 sigur á Ingibjörgu Sigurðardóttur og liðsfélögum hennar í Vålerenga í 8-liða úrslitum norska bikarsins í dag.

Ingibjörg lék allan leikinn í liði Vålerenga en Selma Sól byrjaði á meðal varamanna en kom inn á leikvöllinn í hálfleik.

Celine Nergard og Sara Fornes komu Rosenborg í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik áður en Janni Thomsen minnkaði muninn fyrir Vålerenga rétt fyrir leikhlé.

Á 61. mínútu jafnaði Rugile Rulyte leikinn með sjálfsmarki en það kom ekki að sök því Sara Horte skoraði sigurmark Rosenborg tíu mínútum síðar.

Rosenborg er því komið áfram í undanúrslitin ásamt Stabæk, Fire og Kolbotn. Dregið verður í undanúrslitin síðar í kvöld.

Guðrún Arnardóttir.

Í sænsku úrvalsdeildinni lék Guðrún Arnardóttir allan leikinn fyrir Rosengård sem vann 2-0 sigur á Häcken en bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Með sigrinum fer Rosengård aftur á topp deildarinnar en liðið er nú með tveggja stiga forskot á Linköping þegar 17 umferðir eru búnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×