Handbolti

Hvalreki fyrir Hauka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Már Rúnarsson tekur slaginn með Haukum í vetur.
Andri Már Rúnarsson tekur slaginn með Haukum í vetur. vísir/vilhelm

Haukar hafa heldur betur fengið liðsstyrk fyrir átökin sem framundan eru í Olís-deild karla í handbolta. Andri Már Rúnarsson er genginn í Hafnarfjarðarliðsins frá Stuttgart en samningi hans við þýska félagið var rift.

Hjá Haukum mun Andri spila undir stjórn föður síns, Rúnars Sigtrygssonar. Hann spilaði einnig hjá honum þegar hann lék með Stjörnunni.

Andri lék með Fram tímabilið 2020-21 og fór svo til Stuttgart í fyrra. Þar fékk hann ekki mörg tækifæri og er nú kominn aftur í Olís-deildina.

Ljóst er að Andri styrkir lið Hauka til muna. Hann lék vel með U-20 ára landsliði Íslands í sumar og var 35 manna hópi A-landsliðsins sem var valinn fyrir EM í janúar. Andri, sem er tvítugur, getur bæði leikið sem skytta og leikstjórnandi.

Haukar mæta KA á Ásvöllum á föstudaginn í 1. umferð Olís-deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×