Fótbolti

Barcelona kaupir dýrasta leikmann heims

Valur Páll Eiríksson skrifar
Walsh í baráttunni við Alexiu Putellas í leik Barcelona og Man City á síðasta ári. Walsh fyllir nú skarð Putellas sem verður frá í allt að ár.
Walsh í baráttunni við Alexiu Putellas í leik Barcelona og Man City á síðasta ári. Walsh fyllir nú skarð Putellas sem verður frá í allt að ár. Emmanuele Ciancaglini/Quality Sport Images/Getty Images

Barcelona hefur gengið frá kaupum á Evrópumeistarann Keiru Walsh frá Manchester City á Englandi. Hún verður dýrasta knattspyrnukona sögunnar með skiptunum.

Manchester City hefur hafnað ítrekuðum tilboðum Börsunga í Walsh í sumar en Barcelona er ákvðið í að bæta upp fyrir tap sitt í úrslitum Meistaradeildarinnar í vor og fara alla leið í ár. City hefur nú samþykkt tilboð frá Barcelona upp á 350 til 400 þúsund pund, en aldrei hefur kvenkyns leikmaður verið keyptur fyrir hærri upphæð.

Fyrra met er talið vera kaup Chelsea á Pernille Harder frá Wolfsburg árið 2020 fyrir 300 þúsund pund.

Walsh átti aðeins ár eftir af samningi sínum en hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með Manchester City, frá árinu 2014. Hún sögð spennt fyrir því að færa sig um set og takast á við nýja áskorun með Barcelona sem vann bæði spænsku deildina og bikarinn á síðustu leiktíð.

Talið er að hún muni fylla skarð Alexiu Putellas, sem átti frábæra leiktíð með Katalóníuliðinu, en sleit krossband í júlí, rétt fyrir EM. Vel má vera að hún missi af allri komandi leiktíð vegna meiðslanna.

Hún var lykilleikmaður í liði Englands sem vann EM í sumar og var valin maður leiksins í úrslitaleik mótsins þar sem England vann Þýskaland á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×