Handbolti

Róbert Gunnarsson: „Ég var mjög, mjög stressaður fyrir þennan leik“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Róbert Gunnarsson er að stíga sín fyrstu skref á þjálfaraferlinum.
Róbert Gunnarsson er að stíga sín fyrstu skref á þjálfaraferlinum. Grótta

Róbert Gunnarsson tók sín fyrstu skref sem aðalliðsþjálfari í kvöld þegar hann stýrði Gróttu til stórsigurs á ÍR-ingum. Lokatölur á Seltjarnarnesi 31-20.

Leikplanið gekk upp hjá heimamönnum.

„Rosalega ánægður með að við kláruðum þennan leik, hann spilaðist þannig séð eins og við reiknuðum með. ÍR-ingarnir eru flottir og Bjarni að gera góða hluti með þá, þetta eru flottir strákar, og ég veit að það spá þeim allir beint niður. En ég var mjög, mjög stressaður fyrir þennan leik. Ég er bara stoltur af strákunum að þeir héldu í gameplanið og við náðum að vera þolinmóðir og náðum að sigla þessu svona nokkuð auðveldlega í lokin heim. Það fór alveg um mig þegar það voru tuttugu mínútur búnar.“

Þessi viðureign er sennilega ein af fáum sem hægt er að telja sem skyldusigur fyrir Gróttu í vetur og því mikilvægt að ná honum inn í fyrsta leik á nýju tímabili.

„Við verðum örugglega ekki oft favourite-ar í vetur, en þetta var einn af þeim leikjum. Bara æðislegt að strákarnir sýndu flotta liðsheild og menn að koma inn og mikið rót á liðinu, allir með framlag. Það er eina sem ég get beðið um. Ég meina í fyrri hálfleik vorum við að klikka rosalega úr dauðafærum, það er ekkert hægt að segja við því. Það er bara deadarar og þeir verða bara að finna út úr því. Mér fannst gameplanið virka í dag.“

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, ljómaði allur þegar hann var spurður út í næsta verkefni liðsins sem er á útivelli gegn Selfyssingum.

„Það verður bara æðislegt að fara, ég er náttúrulega nýr í þessu, mér finnst þetta bara geggjað. Þannig að það er alveg sama hvert þið sendið mig, mér finnst allt frábært.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×