Í tilkynningu frá félaginu segir að boðað sé til fundarins að kröfu þriggja hluthafa sem hafi að baki sér rúmlega 10 prósent hlutafjár félagsins og krefjast þeir að á fundinum verði tekin fyrir tillaga þeirra um stjórnarkjör; að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður, og að kjörinn verði ný stjórn ef fyrri tillagan verður samþykkt.
Innan við mánuður er frá því að kosið var til stjórnar Sýnar í kjölfar þess að nýr fjárfestahópur keypti stærsta einstaka hlutinn í félaginu.
Það er Fasta ehf., Tækifæri ehf. og Borgarlind ehf. sem settu fram kröfuna um hluthafafund í síðustu viku.
Fasti ehf. er umsvifamesti hluthafinn af þeim þremur sem fara nú fram á hluthafafundinn, en félagið er í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur. Hilmar Þór sóttist eftir sæti í stjórn Sýnar í stjórnarkjörinu sem fór fram 31. ágúst en náði ekki kjöri.
Boðað var til þess stjórnarkjörs að kröfu Gavia Invest sem fór með 16,08 prósenta hlut í Sýn. Jón Skaftason, forsvarsmaður Gavia, var eini nýi maðurinn sem náði kjöri í stjórn en fjórir af fimm stjórnarmönnum sem sóttust eftir endurkjöri náðu því.
Dagskrá fundarins sem haldinn verður klukan 10 að morgni 20. október 2022:
- Tillaga um að bundinn verði endir á kjörtímabil sitjandi stjórnar félagsins.
- Með fyrirvara um að tillaga undir tölulið 1. hér að framan verði samþykkt, fer fram stjórnarkjör.
- Önnur mál.
Vísir er í eigu Sýnar.