Handbolti

Hergeir vissi lítið um afrek tengdapabba en íhugaði að fara til Ungverjalands

Sindri Sverrisson skrifar
Stjarnan gerði ein allra bestu viðskipti sumarsins þegar félagið náði að krækja í Hergeir Grímsson.
Stjarnan gerði ein allra bestu viðskipti sumarsins þegar félagið náði að krækja í Hergeir Grímsson. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Handboltamaðurinn Hergeir Grímsson segir það hafa komið til greina að hann færi í atvinnumennsku til Ungverjalands í sumar, áður en hann skrifaði undir samning hjá Stjörnunni. Tengdaforeldrar hans eru ungverskir.

Hergeir ræddi meðal annars um þetta í nýjasta hlaðvarpsþætti Seinni bylgjunnar þar sem hann var gestur, en hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan.

Hergeir hefur verið einn af betri leikmönnum Olís-deildarinnar síðustu ár en ákvað að yfirgefa uppeldisfélag sitt Selfoss í sumar og endaði á að fara til Stjörnunnar. Hann íhugaði þó að fara til Ungverjalands áður en Stjarnan hafði samband.

„Maður er ekki til í að fara í hvað sem er. Það voru eitt eða tvö [lið í myndinni]. Þetta var einhver umræða en það varð aldrei að neinu.

Það var ekkert lengi uppi á borði og svo kom Stjarnan upp, og þá fór ég bara þangað með hausinn,“ sagði Hergeir.

Kærasta Hergeirs er Dominiqua Alma Belányi en pabbi hennar er Zoltán Belányi sem var lengi í hópi allra bestu hornamanna íslensku deildarinnar og fékk seinna íslenskan ríkisborgararétt. Hann starfar í dag sem sundþjálfari.

Ásgeir Örn Hallgrímsson benti á hve Zoltán hefði verið frábær leikmaður:

„Ég vissi það ekkert almennilega,“ sagði Hergeir. „Hann segir ekkert sjálfur frá því hvað hann var að skora mikið en hann var bara markahæsti maður deildarinnar, [lék landsleiki fyrir Ungverjaland] og var kóngurinn í Vestmannaeyjum á sínum tíma,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×