Handbolti

Valdi dóttur sína í sænska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyra Axner í leik á móti Tyrklandi í undankeppni EM fyrr á þessu ári.
Tyra Axner í leik á móti Tyrklandi í undankeppni EM fyrr á þessu ári. EPA-EFE/Anders Bjuro

Sænski landsliðsþjálfarinn í handbolta hefur valið úrtakshópinn sinn fyrir EM kvenna sem fer fram í Slóveníu, Norður Makedóníu og Svartfjallalandi í næsta mánuði.

Hin sænsk-íslenska Kristín Þorleifsdóttir er í hópnum eins og undanfarin ár en það sem vakti kannski mesta athygli, var að landsliðsþjálfarinn Tomas Axnér, valdi einnig dóttur sína í hópinn.

Hin tvítuga gamla Tyra Axnér er ein af þeim 21 sem voru valdar voru en hún spilaði sína fyrstu landsleiki fyrr á þessu ári og gæti nú verið á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.

Dagens Nyheder fjallar um valið á sænska landsliðshópnum.

„Tyra spilar í einu besta liðinu í Danmörku og hefur verið í byrjunarliðinu í mörgum leikjanna á þessu tímabili. Við horfum til leikmanna sem eru að keppa á því getustigi,“ sagði Tomas Axnér en dóttirin er vinstri skytta og var valin í lið ársins á EM unglinga árið 2019.

Tyra er á sínu fyrsta tímabili með Nykøbing Falster en lék áður í eitt tímabil með Herning-Ikast Håndbold. Hún fæddist í Minden í Þýskalandi árið 2002 þegar faðir hennar lék með GWD Minden.

Tyra er ein af sex leikmönnum í hópnum sem hafa ekki keppt á stórmóti áður.

Þetta er þó ekki endanlegur hópur því þrír af leikmönnum hans munu sitja eftir heima þegar liðið fer til Slóveníu. Liðið spilar æfingarleiki við Tékka í lok október og eftir það mun þjálfarinn skera niður hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×