Mbappé skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við PSG í sumar eftir miklar vangaveltur um framtíð hans. Talið er að nýi samningurinn færi Frakkanum 650 þúsund pund í vikulaun og ákveðin völd innan PSG.
Gleðin var þó skammvinn og Mbappé er aftur orðinn ósáttur og vill fara frá PSG. Þær fréttir bárust sama dag og liðið gerði 1-1 jafntefli við Benfica í Meistaradeild Evrópu. Mbappé skoraði mark PSG úr vítaspyrnu.
Samkvæmt frétt L'Equipe á Mbappé fáa bandamenn innan raða PSG og einangrast sífellt meira. Talið er að aðeins fjórir leikmenn séu í liðinu hans Mbappé: Presnal Kimpembe, Nordi Mukiele, Hugo Ekitike og Achraf Hakimi.
Aðrir í leikmannahópi PSG ku vera orðnir pirraðir á Mbappé og þeirri sérmeðferð sem hann fær, sérstaklega Suður-Ameríkumennirnir. Meðal þeirra eru fyrirliðinn Marquinhos og Neymar.
Mbappé er ekki ánægður með nýja knattspyrnustjórann hjá PSG, Christoph Galtier, og er sérlega pirraður á því að þurfa að spila einn í fremstu víglínu.
PSG hefur gert jafntefli í síðustu þremur leikjum sínum. Næsti leikur liðsins er gegn Marseille á sunnudaginn.