Kielce vann leikinn 47-26 eftir að hafa verið 23-14 yfir í hálfleik.
Haukur Þrastarson nýtti bæði skotin sín í leiknum, eitt í fyrri hálfleik og eitt undir lok leiks. Auk þess að skora þessi tvö mörk þá gaf hann líka fimm stoðsendingar á þeim 28 mínútum sem hann spilaði. Mörkin hans komu með langskoti og með skoti eftir gegnumbrot.
Aðeins Alex Dujshebaev gaf fleiri stoðsendingar í liði Kielce en hann var með sex slíkar og því einni fleiri en Selfyssingurinn.
Heimsmeistarakeppni félagsliða er haldin í Dammam í Sádí Arabíu. Fyrst er byrjað á fjórum þriggja liða riðlum þar sem efsta liðið tryggir sér sæti í undanúrslitum.
Kielce er einnig í riðli með Handebol Taubaté frá Brasilíu sem vann sex marka sigur á Al Kuwait í gær. Það er því hreinn úrslitaleikur um undanúrslitasætið á morgun.
Nicolas Tournat var markahæstur hjá með 9 mörk úr 11 skotum en Szymon Wiaderny skoraði sjö mörk og Artsem Karalek var með sex mörk.