Stjórnina skipa nú auk Jóns þau Hákon Stefánsson, Páll Gíslason, Rannveig Eir Einarsdóttir og Sesselía Birgisdóttir. Í varastjórn voru kjörin þau Daði Kristjánsson og Salóme Guðmundsdóttir.
Jón er sem fyrr segir nýr stjórnarformaður og Rannveig var kjörin varaformaður.
Gavia Invest, sem Jón fer fyrir, á næststærsta hlutinn í Sýn eða 10,92 prósent. Hópurinn keypti stóran hlut Heiðars Guðjónssonar, fyrrverandi forstjóra, í fyrirtækinu. Aðeins Gildi lífeyrissjóður á stærri hlut eða 14,03 prósent.
Töldu stjórnina ekki endurspegla hluthafalistann
Rannveig Eir og Hilmar Þór Kristinsson, eiginmaður hennar, fjárfestu nýlega fyrir 1,3 milljarð króna í Sýn. Rannveig er forstjóri Reirs Verk í byggingargeiranum sem er sem stendur með yfir 800 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í byggingu eða á teikniborðinu.
Boðað var til hluthafafundar hjá Sýn í lok ágúst þar sem Jón, Hilmar Þór og Reynir Grétarsson, stofnandi CreditInfo og stærsti eigandi Gavia Invest, buðu fram krafta sína. Jón var sá eini af þremenningunum sem náði kjöri.

Petrea Ingileif Guðmundsdóttir var kjörin stjórnarformaður og aðrir í stjórn voru auk Jóns þau Jóhann Hjartarson, Páll Gíslason og Sesselía Birgisdóttir. Öll nema Jóhann voru endurkjörin í stjórn.
Hluthafarnir voru ekki sáttir við niðurstöðuna og töldu stjórnina ekki endurspegla hluthafahóp Sýnar.
„Einkafjárfestar eru orðnir fyrirferðamiklir á hluthafalistanum og bæði eðlilegt og sjálfsagt að þeir komi að stjórn félagsins með virkari hætti en nú er,“ sagði Hilmar Þór við Vísi.
Dró framboð sitt til baka
Hluthafarnir gerðu kröfu um annan hluthafafund sem fór fram í morgun. Í aðdraganda hans dró Petrea Ingileif framboð sitt til stjórnar til baka vegna afarkosta sem hún sagði Orkuveitu Reykjavíkur setja eiginmanni hennar.
Ný stjórn var svo kjörin í morgun. Jón, Rannveig og Hákon koma úr fyrrnefndum hópi einkafjárfesta sem hafa nýlega eignast stóran hlut í fyrirtækinu. Hákon er fyrrverandi framkvæmdastjóri Credit Info.
Páll Gíslason á ekki hlut í Sýn en er forstjóri World Financial Desk LLC og hefur fimmtán ára reynslu af hátíðniviðskiptum á kauphöllum víða um heim. Sesselía er forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum.
Fréttin hefur verið uppfærð.