Hinn 41 árs gamli leikari segist ennþá vera að venjast nýja titlinum. Hann segist búast við góðlátlegri stríðni frá félögum sínum. Hann viti þó um eina konu sem verður himinlifandi.
„Mamma mín verður svo glöð! Hún er stolt af öllu sem ég geri, en þetta er eitthvað sem hún getur virkilega montað sig af,“ segir Evans í viðtali við People.
Tilbúinn til þess að festa ráð sitt
Evans er hvað þekkastur fyrir hlutverk sitt sem ofurhetjan Captain America. Á þessu ári lék hann svo á móti Ryan Gosling í Netflix-myndinni The Gray Man, ásamt því að hafa ljáð Bósa Ljósár rödd sína í nýrri mynd um geimlögguna sívinsælu.
„Þegar kemur að þeim hlutverkum sem ég tek að mér, þá skiptir mestu máli hvar myndin er tekin upp. Ég er orðinn of gamall til þess að búa í ferðatösku í sex mánuði. Ég er kominn á þann stað í lífinu að mér finnst bara best að vera heima.“
Evans setur heilsu sína í forgang og segir jafnvægi á milli vinnu og einkalífs vera mikilvægt. Hann er mikill fjölskyldumaður og eyðir mestum tíma með fjölskyldu sinni í Boston. Þá segist hann vera tilbúinn til þess að festa ráð sitt og stofna sína eigin fjölskyldu.
Tímaritið People velur kynþokkafyllsta mann heims á hverju ári en fyrirrennarar Evans eru meðal annars Michael B. Jordan, John Legend, Idris Elba og Blake Shelton.