Fótbolti

Vildu ekki sjá kvennaliðið undir þeirra hatti þótt þær beri sama nafn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klefamynd hjá LSK kvinner frá því í sumar. Liðið endaði í sjöunda sæti í norsku toppdeildinni.
Klefamynd hjá LSK kvinner frá því í sumar. Liðið endaði í sjöunda sæti í norsku toppdeildinni. Twitter/@LSKKvinner

Kvennalið Lilleström á ekki upp á pallborðið hjá Lilleström. Það kom vel í ljós í kosningu á aðalfundi félagsins í gær.

Meðlimir í norska knattspyrnufélaginu Lilleström kusu í gær um það hvort að kvennalið Lilleström mætti koma inn undir verndarvæng Lilleström félagsins.

Hingað til hafa LSK Kvinner verið sjálfstæðar þótt að þær hafi borið nafn sama og það félag sem rekur karlaliðið. Áður en LSK Kvinner tók upp þetta nafn sitt þá hét félagið Team Strömmen og upphaflega hét félagið Setskog/Höland.

Það var enginn vafi á því að meðlimirnir vildu ekki sjá kvennaliðið undir sínum hatti. 151 af þeim 158 sem höfðu atkvæðarétt höfnuðu tillögunni. Það voru aðeins sjö eða bara 4,4 prósent sem kusu með því að kvennalið Lilleström fengi að starfa innan Lilleström.

LSK Kvinner hefur verið í hópi bestu kvennalið Noregs og hefur unnið sjö meistaratitla og fimm bikarmeistaratitla. Það hefur hins vegar gengið verr á síðustu árum sem er örugglega ástæða þess að LSK stelpurnar vildu fá meira bakland.

Því var hins vegar hafnað og því þurfa þær að standa áfram á eigin fótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×