Áfanganum var fagnað í höfuðstöðvum félagsins á Seltjarnarnesi í gærkvöldi en Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds, var alsæll með málið þegar fréttastofa náði tali af honum í miðjum fögnuði.
„Við erum búin að vera dugleg að þróa og erum núna farin svona að sýna árangurinn af því,“ sagði Stefán en hann stofnaði félagið árið 2013 ásamt Stefáni Björnssyni og Sigurði Arnljótssyni.
Ákveðið útgáfuferli fer af stað snemma næsta árs að sögn Stefáns og mun þá aðgengi að leiknum opnast á helstu markaðssvæðum fyrirtækisins. Ekki er hægt að nálgast leikinn á helstu leikjaveitum eins og er en það verður hægt á nýju ári.
Starborne Frontiers er hannaður fyrir farsíma en einnig er hægt að spila hann í tölvu. Um er að ræða annan leik félagsins en sá fyrsti var Sovereign Space. Í Starborne Frontiers skella spilarar sér í hlutverk flotaforingja til að kanna, skipuleggja og sigra Starborne alheiminn.
„Þetta er svokallaður hlutverkaleikur þar sem að spilarar eru að safna hetjum, uppfæra hetjurnar, fara inn í ákveðnar aðstæður og leysa þrautir. Þeir mega bara nota ákveðinn hluta af hetjunum í hvert skipti, kannski fimm en eiga hundrað eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Stefán um leikinn.
„Leikurinn höfðar mjög vel til karlmanna, svolítið, en þetta snýst alltaf um þessa markmiðasetningu að komast upp á næsta skref og svo framvegis. Það eru líka mjög sterkir eiginleikar í leiknum fyrir þá sem vilja spila með öðrum spilurum og það eru svona þeir sem eru að fara að spila til lengri tíma,“ sagði hann enn fremur.