Þotan var keypt ný og flaug hún beint til Grænlands frá Airbus-verksmiðjunum í Toulouse í Frakklandi. Nokkrir af forystumönnum landsins, þeirra á meðal forsætisráðherrann Múte B. Egede, voru meðal boðsgesta í fluginu, sem tók fimm og hálfan tíma, og lenti vélin á Kangerlussuaq-flugvelli klukkan eitt eftir hádegi.
Smíði þotunnar í Frakklandi og flugtak þaðan má sjá í myndbandi frá Airbus. Komu hennar til Grænlands má sjá í myndbandi frá KNR.
Á flugvellinum bauð slökkviliðið flugvélina velkomna. Íbúum bæjarins og öðrum gestum var boðið að ganga um borð og þiggja kaffiveitingar í flugskýli.

Hún verður fyrst um sinn notuð á flugleiðinni milli Kaupmannahafnar og Kangerlussuaq, og síðan til nýju flugvallanna í Nuuk og Ilulissat, þegar þeir bætast við. Þá er Air Greenland einnig að huga að flugi til nýrra áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku.
Nýja flugvélin er innréttuð með 305 farþegasætum. Þar af eru 42 sæti á fyrsta farrými en 263 sæti á almennu farrými. Í fréttatilkynningu Airbus segir að ný kynslóð hreyfla af gerðinni Rolls-Royce Trent 7000, ný vænghönnun og fleiri flugfræðilegar endurbætur þýði 25 prósent minni eldsneytisnotkun og þar með minni kolefnislosun.
Flugvélin hefur hlotið nafnið Tuukkaq, sem þýðir spjótsoddur eða skutulsoddur. Hún leysir af hólmi eldri flugvél sömu tegundar, A330-200, sem smíðuð var árið 1998, og tekur 278 farþega. Sú ber nafnið Norsaq, sem þýðir spjót, og eru bæði nöfnin þannig táknræn fyrir grænlenska veiðimenningu.
Myndband frá Airbus sýnir samsetningu flugvélarinnar og flugtak hennar: