Handbolti

Kielce tapaði sínum fyrsta deildarleik í rúm þrjú ár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Wisla Plock fögnuðu ógurlega í leikslok, enda ekki á hverjum degi sem liðum í pólsku deildinni tekst að vinna gegn Kielce.
Stuðningsmenn Wisla Plock fögnuðu ógurlega í leikslok, enda ekki á hverjum degi sem liðum í pólsku deildinni tekst að vinna gegn Kielce. Twitter/Wisla Plock

Eftir 82 sigurleiki í röð í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta er sigurgöngu Lomza Kielce á enda. Kielce mátti þola tveggja marka tap er liðið heimsótti Wisla Plock fyrr í kvöld, lokatölur 29-27.

Það eru rúmlega þrjú ár síðan liðið tapaði seinast deildarleik, en þá tapaði liðið einnig gegn Wisla Plock. Sá leikur endaði 27-26 og fór hann fram þann 9. október árið 2019. Síðan þá eru liðnir 1.160 dagar.

Þrátt fyrir að liðið hafi unnið 82 deildarleiki í röð fram að kvöldinu í kvöld hefur Kielce þó gert tvö jafntefli heima fyrir í þessari ótrúlegu sigurgöngu. Reglur pólsku deildarinnar eru þó aðeins öðruvísi en við eigum að venjast hér á Íslandi, en þar er farið í vítakastkeppni ef jefntefli verður í venjulegum leiktíma.

Sigur í venjulegum leiktíma gefur þrjú stig, sigur í vítakastkeppni eftir jafntefli gefur tvö stig, tap í vítakastkeppni eftir jafntefli gefur eitt stig og að lokum fæst ekkert stig fyrir tap.

Haukur Þrastarson var eins og gefur að skilja ekki í leikmannahópi Kielce er liðið tapaði í kvöld, en hann sleit krossband fyrr í vikunni og verður lengi frá.

Kielce situr nú í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir 13 leiki, þremur stigum á eftir Wisla Plock sem er enn með fullt hús stiga að 13 umferðum loknum. Það verður því að teljast ansi líklegt að baráttan um pólska meistaratitilinn muni ráðast þegar þessi tvö lið mætast á ný í maí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×