Sveindís Jane opnaði ekki aðeins markareikning sinn í Meistaradeildinni heldur var bæði með mark og stoðsendingu í 4-2 sigri Wolfsburg á Roma í 4. umferð riðlakeppninnar.
Sveindís byrjaði á bekknum en kom fljótt inn á völlinn og kom Wolfsburg á bragðið með því að leggja upp fyrsta markið og skora annað markið.
Stoðsending Sveindísar á pólsku landsliðskonuna Ewa Pajor þótti ein af flottustu stoðsendingunum í Meistaradeildinni.
Sveindís keyrði þá á vörnina, komst upp að endamörkum og náði boltanum fyrir á Ewu áður en hann fór aftur fyrir. Ewa skoraði með laglegum skalla.
Það var ekki nóg með að stoðsending Sveindísar þótti ein af þeim flottustu þá var flottasta stoðsendingin í vikunni sú sem þýska landsliðskonan Lena Oberdorf átti inn á Sveindísi.
Sveindís þakkaði vel fyrir sig með því að stinga vörn Rómarliðsins af og skora með flottri afgreiðslu.
Það má sjá allar flottustu stoðsendingu vikunnar hér fyrir neðan sem og flottustu tilþrifin þar sem Sveindís Jane komst líka á lista.